Gott fólk!
Það er auðvitað orðið alltof langt síðan síðast og fyrir því eru ýmsar ástæður sem óþarfi er að rekja á þessum vettvangi. Það sem skiptir mestu máli er að Planitor er enn í fullu fjöri og vex og dafnar með hverjum mánuðinum sem líður. Fundargerðir Hafnarfjarðarbæjar hafa bæst við í fundargerðargáttina og það sem enn betra er að Planitor og Hafnarfjörður hafa gert með sér þjónustusamning um miðlun fundargerða og vöktunarþjónustu fyrir notendur þjónustu á sviði skipulags- og byggingamála. Umsækjendur geta nú fengið sjálfvirkar tilkynningar í tölvupósti um framvindu umsókna um leið og þær eru teknar til afgreiðslu á fundum skipulags- og byggingarráðs, afgreiðslufundum skipulags- og byggingarfulltrúa, í bæjarráði og bæjarstjórn. Vonir okkar standa til að samstarfið bæti þjónustu sveitarfélagsins til muna og vonandi fylgja fleiri sveitarfélög í kjölfarið nú þegar Hafnarfjörður hefur tekið afgerandi forystu í stafrænni miðlun fundargerða.
Ýmis fleiri samstörf við opinbera aðila og fyrirtæki eru hafin eða í pípunum og við munum greina betur frá þeim síðar. Umferðin um vefinn eykst dag frá degi og fjölmargir eru farnir að nýta sér þjónustu vaktarans til að fylgjast með eignum sínum, nærumhverfi og/eða öðrum málum sem vekja áhuga. Jafnframt styttist í að næstu sveitarfélög bætist við upplýsingagáttina og í ljósi umræðunnar undanfarnar vikur og mánuði um stöðuna á húsnæðismarkaðnum og hinn hrópandi skort á yfirsýn höfum við aldrei verið sannfærðari um erindi Planitor.
Um þetta og reynsluna af stofnun Planitor ætlum við einmitt að falla lítillega um á rafrænum fundi Samtaka iðnaðarins og Nordic Innovation House í New York um fasteignatækni á Íslandi á fimmtudaginn nk. kl. 13:00. Ekki láta þann viðburð framhjá ykkur fara.
Þangað til næst!
G&J