Fréttir úr heimi fundargerða
Fyrstu lausnir Planitor eru byrjaðar að taka á sig mynd. Hægt og bítandi erum við að ná utan um allar fundargerðir bygginga- og skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá árinu 2012. Á næstu dögum bætist síðan Skipulags- og samgönguráð borgarinnar við. Sveitarfélögin verða síðan færð inn í kerfið koll af kolli það sem eftir lifir árs.
Á myndinni hér fyrir neðan má sjá fundargerðir byggingarfulltrúans Í Reykjavík eins og þær birtast á vef Reykjavíkurborgar í dag.
Hér fyrir neðan má svo sjá sömu gögn í nýju viðmóti Planitor. Markmiðið að brjóta fundargerðirnar niður í hverja bókun og greina upplýsingarnar sem þar koma fram eins og kostur er. Jafnframt opnast á möguleika til að deila hverri bókun eða afgreiðslu beint á milli aðila eða á samfélagsmiðlum í stað þess að þurfa deila hlekk á fundargerðina alla.
Þannig verður t.d. hægt að rekja afgreiðsluhraða máls á skilvirkari hátt en áður. Tenging við fasteignaskrá er einnig komin og fljótlega verður hægt að fletta beint upp gildandi skipulagi fyrir hvert heimilisfang sem kemur upp.
Næsta skref er síðan að samkeyra gagnagrunn Planitor við staðfangaskrá svo hægt verði að rekja mál á milli embætta byggt á heimilisföngum. Þannig verður hægt að fá yfirsýn yfir afgreiðslur þegar mál færast á milli byggingafulltrúa og skipulagsfulltrúa svo dæmi sé nefnt.
Leitarvélin okkar er einnig að taka á sig mynd. Í henni verður t.d. hægt að leita eftir heimilisföngum, málsaðilum, lykilorðum, fyrirtækjum og svæðum þvert á öll sveitarfélög á Íslandi. Möguleikarnir eru nær endalausir og margt spennandi í pípunum sem mun líta dagsins ljós á næstu vikum!
Góða helgi og ekki hika við að dreifa þessu fréttabréfi sem víðast!
-Gummi & Jökull