Planitor

Hugbúnaður fyrir skipulagsmál og mannvirkjagerð á Íslandi

Við Jökull höfum mikinn áhuga á borgarskipulagi, mannvirkjagerð og sprotafyrirtækjum. Það er ekki alltaf auðvelt á Íslandi þar sem erfitt getur reynst að grafa upp gögn, rekja mál og fylgjast með öllu sem er í gangi. Sveitarfélögin gera sitt besta, vilja bjóða upp á gagnsæi og öfluga upplýsingagjöf en okkur finnst stafræna byltingin ganga heldur hægt. Þess vegna stofnuðum við Planitor.

Tímasetningin er engin tilviljun, við vorum báðir smá eirðarlausir og í leit að nýjum áskorunum í miðjum Covid-19 heimsfaraldrinum og okkur hefur lengi langað til að stofna fyrirtæki saman. Sumt er einfaldlega skrifað í skýin.

Við ætlum að ríða á vaðið með þrjár vörur: 1. Leitarvél, 2. Vaktara og 3. Byggingarpúls. Hugmyndin er að hnoða lífi í fundargerðir sveitarfélaganna, búa til nýja gagnastrauma þar sem hægt verður að rekja mál fram og til baka, vakta einstaka orð, fyrirtæki, hagsmunaaðila. Framsetningin verður fjölbreytt, bloggfærslur, kortagrunnar og svo þetta fréttabréf svo fátt eitt sé nefnt. Þegar fram líða stundir mun Planitor einnig bjóða upp á greiningar. T.d. á afgreiðsluhraða og frammistöðu sveitarfélaganna.

Framundan eru miklar breytingar á Íslandi, sveitarfélög munu sameinast og kröfur um gagnsæjar og notendavænar lausnir verða æ háværari. Planitor ætlar að verða leiðandi afl í þeirri þróun á sviði skipulags- og byggingarmála.

Endilega skráið ykkur á þennan póstlista og fylgist þannig með þróun mála. Við ætlum ekki að blása í lúðra og byrja með miklum látum heldur kynna vörurnar hægt og bítandi á sama tíma og þær verða tilbúnar. Vonandi fáum við síðan sem flesta með okkur í lið til að þróa þær með okkur og gera þær ennþá betri.

-Guðmundur Kristján Jónsson & Jökull Sólberg Auðunsson